4. Safnarinn Petra
Safnari og náttúrubarn eru orð sem tengjast Petru órofa böndum. Frá því hún opnaði augun í fyrsta skipti veitti hún umhverfi sínu meiri athygli en flest okkar gera nokkurn tímann. Foreldrar hennar virðast hafa skynjað þetta og völdu henni því viðeigandi nafn því á grískri tungu þýðir orðið „petra“ einfaldlega steinn.
Petra byrjaði að safna steinum fyrir alvöru þegar þau Nenni fluttu inn í Sunnuhlíð árið 1946. Ástæðan var einfaldlega sú að þá hafði hún loksins svigrúm til að færa alla steinana heim í hús. Þessa steina hafði hún skoðað í fjöllunum frá barnsaldri svo að í raun hafði söfnunarstarf hennar farið fram í huga hennar fram að þeim tíma að hún hafði húsrúm til að taka þá með sér og geyma. Eða eins og hún sagði sjálf: „Ég vissi hvert ég ætti að fara þegar ég fór virkilega að safna.“
Marga þeirra steina sem Petra fann sem barn er ekki að finna í safninu hennar. Erlendir sem innlendir steinasafnarar voru búnir að hafa þá á brott með sér áður en Petra hafði aðstöðu til að safna þeim. Fjölmarga steina lét Petra einnig hvíla á þeim stöðum sem þeir hafa legið í milljónir ára. Þessir steinar eru einfaldlega of stórir til að hreyfa þá úr stað en Petra heimsótti þá reglulega og skoðaði þá. Hún „heilsaði upp á þá“, eins og hún orðaði það sjálf og freistaðist aldrei til að brjóta þá niður til að koma hluta af þeim heim með sér. Það má því segja að steinasafnið hennar hafi verið geymt á tveimur aðskildum stöðum; í Sunnuhlíð og í huga hennar sjálfrar. Það síðarnefnda náði um fjörðinn allan og svo langt þar út fyrir.
Fyrstu tuttugu árin af söfnunarstarfi sínu sótti Petra nær eingöngu steina í fjörurnar og fjallgarðinn norðan fjarðarins. Petra gekk einfaldlega út um aðaldyrnar á Sunnuhlíð og eins og leið lá upp brekkurnar og á fjöllin fyrir ofan. Allt fram á miðjan sjöunda áratuginn voru engir vegir til að fara til steinaleitar suður fyrir fjörð eða í firðina sunnan við Stöðvarfjörð. Bílvegur var ekki lagður um Kambanesskriður fyrr en árið 1962 og brú yfir Stöðvará kom það sama ár. Bílfær vegur norður til Fáskrúðsfjarðar kom heldur ekki fyrr en árið 1953. Stöðvarfjörður var því mjög afskekktur lengi eftir að bílaöld hófst sem frestaði því að Petra leitaði steina í nálægum sveitum. Steinarnir hennar eru því langflestir úr Stöðvarfirði og af Austurlandi því Petra leitaði sjaldan steina í öðrum landsfjórðungum.
Margir hugsa með sér að steinasafnari hljóti að vera svolítið skrítinn og Petra fékk að heyra þá skoðun úr mörgum áttum í gegnum árin. Henni var oft bent góðlátlega á að henni væri nær að halda sig heima við bakstur eða önnur heimilisverk sem hæfðu betur húsmóður eins og henni. Petra lét slíkar úrtölur eins og vind um eyru þjóta og reyndi ekki að bæla niður söfnunarþörf sína. Hún var samt sammála því að hún hlyti að hafa verið sérlunduð fyrst hún hafði gaman að því að tína grjót. En það var þörf sem hún réði ekki við.
Það duldist engum að Petra bjó að sérstakri gáfu til að finna fallega steina. Þeir eru fjölmargir sem hafa farið með henni í steinaleit og hafa lýst því hvernig hún týndi upp glæsilega steina úr slóð þeirra; steina sem þeir veittu enga sérstaka athygli. Suma þeirra sótti Petra niður í fúamýrar án þess að nokkuð gæfi það í skyn að þar leyndist eitthvað sem vert var að skoða.
Petra taldi það ekki fjarri lagi að líkja steinasöfnun við veiðar. Það sem réttlætti erfiðið við burðinn var spenna leitarinnar og ánægjan af „veiddum“ steini. Engir tveir steinar eru eins og hún sá alltaf eitthvað nýtt í hverjum steini sem hún fann. Þessi sköpunarkraftur náttúrunnar kallaði hana til sín og hún gat aldrei leitt það kall hjá sér. Petra sagði að gleðin yfir fundnum steini hefði þó ávallt verið blönduð svolitlu samviskubiti. Hún hafði það oft á tilfinningunni að hún hefði rænt þá sem í náttúrunni búa. Þrátt fyrir að hún hefði aldrei séð til ferða álfa og huldufólks, efaðist hún ekki um tilvist þeirra og trúði því að henni væri fyrirgefið. Til marks um það sagði hún vera þá staðreynd að hún hefði aldrei dottið illa eða meitt sig í öll þau ár sem hún sótti ríki þeirra heim. Þetta túlkaði hún sem svo að steinasöfnun hennar hefði verið sátt og samlyndi við þá sem hún taldi vera óumdeilda eigendur steinanna.