fbpx

6. Kjarnakona

Það fór ekki fram hjá neinum sem heimsótti Petru að hún var duglegur steinasafnari. Færri vita að söfnunaráhugi hennar einskorðaðist ekki við steinasöfnun. Petra safnaði merktum pennum, bollum og fleiri smáhlutum auk þess sem hún safnaði hverskonar skeljum og kuðungum í marga áratugi. Hún fór oft í langar söfnunarferðir um fjörurnar í firðinum en önnur söfnunaraðferð Petru var að fara með krakkahópa á bryggjurnar til að safna fiskislógi. Á eldhúsgólfinu í Sunnuhlíð var slógið síðan skorið niður og grandskoðað og margar vandfundnar tegundir kuðunga og skelja bættust þannig í safnið hennar.

Petra safnaði líka vasaklútum en ástæða þeirrar söfnunar er nokkuð sérstök. „Þegar ég og Rósa vinkona vorum átta eða níu ára þá vorum við hérna upp í fjalli og ákváðum að gefa alltaf hvor annarri vasaklút í afmælisgjöf. Það mátti aldrei vera minna en vasaklútur, hann var skyldustykki. En á meðan að við værum sáttar þá átti að vera eitthvað meira. En það væru boð um að það væri ekki allt í lagi ef það kæmi bara vasaklútur. Og það kom alltaf vasaklútur á hverju ári og enn í dag og alltaf eitthvað meira.“ Á hverju ári endurnýjuðu þær heitið og með tímanum eignaðist Petra stórt og litríkt safn vasaklúta sem er minnisvarði um ævilanga vináttu.

Aðspurð gerði Petra lítið úr því að hún hefði mikinn áhuga á jarðfræði eða náttúrufræðum almennt. Hún sagði áhuga sinn einskorðast við fegurðina sem leynist í náttúrunni en ekki fræðin að baki henni. Í bréfasafni hennar leynist þó vitnisburður um annað því þar er að finna fjölmörg bréf jarðfræðinga, sjávarlíffræðinga og grasafræðinga. Bréfin eru bæði svör við ýmsum spurningum Petru um steina og almenna náttúrufræði en einnig þakkarbréf þeirra fyrir sýni sem hún gaf til rannsókna og fræðastarfs. Eitt þessara sýna sem Petra sendi til rannsókna var kuðungur sem Anton Helgason fann stutt frá heimili sínu í Löndum, þá aðeins barn að aldri. Kuðungurinn reyndist ekki hafa fundist annars staðar í heiminum og var honum gefið nafnið Stöðvarkóngur. Petra lagði því sitt á vogarskálarnar til að auka við vitneskju okkar á íslenskri náttúru þó sjálf vildi hún gera lítið úr því.

Þó að Petra byði þúsundum gesta að skoða safnið sitt á hverju ári var henni illa við þá athygli sem hún sjálf fékk vegna safnsins. Árið 1995 veitti Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, Petru hina íslensku fálkaorðu sem viðurkenningu fyrir söfnun og varðveislu náttúruminja. Í tilefni þessarar viðurkenningar var Petru boðið til viðhafnarmálsverðar að

Bessastöðum en Petra afþakkaði. Rök Petru fyrir að afþakka hið höfðinglega boð voru einföld: „Ég fékk viðurkenningu fyrir steinana sem ég á en ekki fyrir sjálfa mig. Það voru steinarnir sem fengu fálkaorðuna.“ Eftir fortölur fjölskyldu og vina fór Petra þó í veisluna og líkaði vel. Svo illa var Petru við athygli að hún sagðist alltaf hafa reynt að klæða sig þannig að lítið yrði eftir henni tekið. Hún kærði sig alltaf kollótta um tískustrauma samtímans og gaf lítið fyrir það sem kallast á móðins á hverjum tíma. Henni þótti alltaf „fín föt“ óþægileg og „allt sem því fylgir“ óþarfa tímaeyðsla. Hún málaði sig því aldrei. Skartgripi bar hún ekki heldur af nokkru tagi og á ferðalögum fannst henni best að hafa handfarangur sinn í litlum plastpoka. Þegar öllu er á botninn hvolft þá mótaðist smekkur Petru af lífsýn hennar og áhugamálum.

Áhugi Petru á undrum náttúrunnar var sprottinn af þeirri virðingu sem hún bar fyrir öllu sem náttúrunni tilheyrir. „Ég man eftir því að ég hugsaði að það væri voðalegt að geta hvorki skáldað lag eða vísu eða neitt fallegt um allt það sem maður sér fallegt. Að koma því til skila einhvern veginn. Ég hef upplifað svo margt fallegt út í náttúrinni. Alveg rosalega fallegt; ótrúlegt. Ég hef margoft sest niður og dáðst að náttúrunni. Þetta er allt svo breytilegt.“ Þessi orð sanna að Petra var listakona í hjarta sínu. Steinarnir voru hennar farvegur til að fá útrás fyrir djúpstæða tjáningarþörf og gestabækurnar sýna að margir sem hingað koma upplifa heimili hennar sem listaverk. Petru tókst því að miðla þeirri fegurð sem hún naut á ferðum sínum, þó að það hafi ekki verið ætlun hennar í upphafi.

Kveðjustund (úr bókinni Steina Petra)

Oft komin til fjalla þegar ég leggst á koddann

Petra Sveinsdóttir„Ég hef verið mjög lánsöm hvað varðar heilsuna, ekki síst hendurnar sem ég hef fiktað með allan daginn. Ég hlýt að þakka það mikilli útiveru. Það er ekki til í dæminu að ég sé hrædd við dauðann. Ég býst ekki við að halda áfram minn veg eins og ekkert hafi ískorist en ég þurrkast örugglega ekki alveg út. Ég trúi því ekki endilega að skrattinn bíði öðrum megin og reyni að klófesta mig og guð hinum megin. Það er margt meira spennandi í veröldinni en þetta sem við okkur blasir dagsdaglega. Ég sé ekki eftir neinu, er mjög sátt og vildi ekki breyta neinu þótt ég gæti rakið upp lífið. Ég prjóna iðulega frá morgni til kvölds og er oft komin til fjalla þegar ég leggst á koddann."

Petra lést 10. janúar 2012, sex vikum eftir að bókin var gefin út.