fbpx

Steinasögur

Margt skemmtilegt átti sér stað á þeim 80 árum sem Petra safnaði steinum. Hér eru þrjár sögur af slíku.

WC

Þegar Petra byrjaði að raða upp steinunum sínum hér í garðinum var það einfaldlega vegna þess að hún gat ekki haft þá alla innandyra. Í fyrstu raðaði hún steinunum fyrir neðan húsið en síðan meðfram vesturhlið hússins og áfram upp í garðinn. Þegar kom fram á sjötta áratuginn voru steinarnir orðnir það áberandi í garðinum að ferðamenn tóku að banka upp á og spyrja hvort þeir mættu skoða safnið hennar. Gestabækur Petru sýna að fyrstu árin voru þetta aðeins fáeinir Íslendingar sem sóttust eftir að skoða steinana, en jafnt og þétt fjölgaði gestunum og ekki síst erlendum ferðamönnum. Ekki leið á löngu þangað til að gestirnir á heimili Petru voru farnir að skipta þúsundum á hverju ári.

 

Einhvern daginn renndi rúta upp að heimili Petru með stóran hóp erlendra ferðamanna sem vildu fá að skoða safnið. Margir þeirra þurftu að létta á sér eftir langa keyrslu, og því myndaðist fljótlega biðröð fyrir framan salerni fjölskyldunnar. Fararstjóranum fannst þetta ganga nokkuð hægt fyrir sig og hafði orð á því við Petru að hún þyrfti nú fljótlega að gera eitthvað róttækt í salernismálunum. Af alþekktri rósemi svaraði Petra: „Ég veit það nú ekki. Við erum nú bara þrjú hérna í heimili og okkur dugar eitt klósett“.

 

Í fjörutíu ár tók Petra á móti tugum þúsunda gesta á heimili sínu og leyfði þeim að skoða steinana sína án endurgjalds. Margir þeirra töldu sig vera að skoða safn þegar þeir voru í raun staddir á heimili þessarar gjafmildu konu. Í fjöldamörg ár var Petra hvött til þess að þiggja greiðslu af gestum sínum en hún hafnaði því ávallt með þeim rökum að steinarnir væru ekki hennar eign frekar en annarra Íslendinga. Fyrir nokkrum árum samþykkti hún loksins að þiggja aðgangseyri af gestum sínum þegar hún stóð frammi fyrir því að þurfa að reisa Söguhúsið. Í dag heimsækja steinasafnið rúmlega 20.000 gestir á hverju sumri sem gerir safnið að einum fjölsóttasta viðkomustað ferðamanna á Austurlandi.

Náttúran kallar

Einu sinni sem oftar fór Petra í steinaleit með vinkonu sinni Þórdísi Ásmundsdóttur og lá leið þeirra til Fáskrúðsfjarðar. Eftir nokkra tíma í fjallinu, án þess að merkilegir steinar hefðu komið í leitirnar, ákváðu þær að halda heim á leið.

Þegar þær voru komnar nokkuð áleiðis ákváðu þær að stoppa stuttlega þar sem að „náttúran kallaði“ á þær báðar; eða eins og Petra orðaði það: „Við þurftum að piss’okkur eins og gengur og gerist“. Þær lögðu því bílnum og löbbuðu stutta leið niður fyrir kletta í fjörunni fyrir neðan veginn. Petra valdi sér stað þar sem nokkuð vænn steinn lá stakur í fjörunni og hafði hann til stuðnings. Á meðan Petra dvaldi við steininn fór hún að skoða hann betur. Henni virtist sem stuttu áður hefði steinninn rúllað úr berginu fyrir ofan og af rælni bankaði hún í hann með litlum fjörusteini. Við höggið klofnaði steinninn í tvennt og í ljós kom þessi glæsilegi bergkristall sem hér gefur að líta.

Steinakerlingarnar tvær flýttu sér nú upp í bíl og náðu þar í strigapoka til að bera steininn upp fjörukambinn; sem var fljótlegt. En eftir að steinninn var kominn á strigann tók við tímafrekur og erfiður burður. Þó að leiðin væri ekki löng var erfitt að koma steininum að bílnum. Aðallega var það vegna þess að steinninn var þungur og landið erfitt, en ekki síður vegna þess að mest alla leiðina hlógu þær innilega að því hvernig fund steinsins bar að. Petra og Þórdís voru sammála um það að steininn hefðu þær ekki borið mikið lengri leið en þær gerðu þennan dag, og voru því fegnastar að þessi gersemi fannst svo stutt frá veginum.

Það kemur kannski engum á óvart að þessi fagri steinn er aldrei kallaður annað en „hlandsteinninn“.

Petra's favorite stone

Uppáhalds steininn

Petra fann þessa glæsilegu kalsedón- og bergkristalholu á einum uppáhaldssteinastaðnum sínum rétt upp úr 1960. Á þessum tíma var Petra með þrjú ung börn og til að komast í steinaleit varð hún oft að taka þau með sér í fjallið. Þennan tiltekna blíðviðrisdag fylgdu þau Ingimar, Sveinn og Elsa Lísa mömmu sinni og með þeim fjórir vinir á sama aldri.

Þessi dagur varð eftirminnilegur fyrir margra hluta sakir. Veðrið var einstakt og náttúran skartaði sínu fegursta. Þegar hópurinn hafði gengið nokkra stund um brekkurnar norðan fjarðarins rákust þau á tófugreni. Eins og nærri má geta fyllti það hópinn eftirvæntingu þegar grenið var skoðað en lágfóta reyndist vera fjarverandi í þetta skiptið.

Þegar hópurinn náði áfangastað sínum leið ekki langur tími áður en Petra kom auga á þennan glæsilega stein. Petra átti nú úr vöndu að ráða. Steinninn var of stór og þungur til að hún gæti borið hann heim en hún var jafnframt hrædd um að skilja hann eftir því hún óttaðist að einhver annar steinasafnari rækist á hann á meðan hún næði í aðstoð. Petra velti því steininum nokkuð langa leið þar til hún fann hentuga gjótu. Þar huldi hún steininn með mosa og öðru lauslegu sem hún fann.

Það var tekið að kvölda þegar Petra kom heim með börnin en hún hélt samt aftur á fjallið um leið og hún var búin að finna sér burðarsveina. Þegar þangað var komið var steinninn settur í strigapoka og látinn síga fram af hömrum í köðlum sem hafðir voru meðferðis. Með þessu var heimferðin stytt töluvert og vandalítið að bera hann til byggða, þó að erfiðið væri mikið.

Í þessu tilkomumikla safni er erfitt að fullyrða að einn steinn standi öðrum framar. Petra var þó ekki í neinum vafa; þessi steinn var hennar uppáhald. Það er ekki vegna þess að Petru þætti hann fallegastur heldur var hann henni kær vegna þess hversu dagurinn var eftirminnilegur. „Veðrið og náttúran öll, samvistirnar við börnin og spennan sem fylgdi því að koma steininum í öruggt skjól gerir hann svo sérstakan“.

Kveðjustund (úr bókinni Steina Petra)

Oft komin til fjalla þegar ég leggst á koddann

Petra Sveinsdóttir„Ég hef verið mjög lánsöm hvað varðar heilsuna, ekki síst hendurnar sem ég hef fiktað með allan daginn. Ég hlýt að þakka það mikilli útiveru. Það er ekki til í dæminu að ég sé hrædd við dauðann. Ég býst ekki við að halda áfram minn veg eins og ekkert hafi ískorist en ég þurrkast örugglega ekki alveg út. Ég trúi því ekki endilega að skrattinn bíði öðrum megin og reyni að klófesta mig og guð hinum megin. Það er margt meira spennandi í veröldinni en þetta sem við okkur blasir dagsdaglega. Ég sé ekki eftir neinu, er mjög sátt og vildi ekki breyta neinu þótt ég gæti rakið upp lífið. Ég prjóna iðulega frá morgni til kvölds og er oft komin til fjalla þegar ég leggst á koddann."

Petra lést 10. janúar 2012, sex vikum eftir að bókin var gefin út.