Hornsteinn okkar þjóðar
Friðrik Brekkan leiðsögumaður lagði margoft leið sína í steinasafnið með fjölda ferðamanna. Hann heldur því fram að Petra sé einn af horsteinum þjóðarinnar.
"Petra er einlæg og hefur haldið sér við sína hugsjón alla tíð og þannig hrifið fólk með sér. Safnið á Stöðvarfirði er á heimsmælikvarða einmitt vegna þessa. Flestir ferðamenn, sem koma til landsins, eru „venjulegt“ fólk, skilur vel venjulega hluti og metur framtak eins og steinasafnið. Öll umræða á Íslandi er því miður á svo lágu plani og tengd peningum og dansi í kringum frægar kvikmyndastjörnur að lítið fer fyrir aðdáun og skilningi á framtaki manna og kvenna eins og Petru. Ef við myndum líta betur á það sem vel er gert og af einlægni í okkar eigin landi værum við ekki í andlegri spennutreyju. Menn myndu læra að þekkja og meta land sitt og þjóð betur og vera ekki með þessa eilífu minnimáttarkennd. Petra er svo sannarlega einn af hornsteinum okkar þjóðar. Ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast henni og hennar starfi um áratuga skeið. "